Flugakademía Keilis og AST útskrifa flugvirkja í annað sinn

Flugakademía Keilis útskrifaði í annað sinn flugvirkja frá Keili við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 13. janúar síðastliðinn. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Árna Má Andréssyni, verkefnastjóra flugvirkjanámsins. 
 
Björn Pálsson fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í flugvirkjanáminu með 9,4 í meðaleinkunn. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bókagjöf frá Isavia. Með útskriftinni hafa 41 nemandi lokið flugvirkjanámi við skólann. Ásbjörn Halldór Hauksson flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
 
Flugakademía Keilis býður upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Um er að ræða fimm anna samþykkt nám fyrir flugvirkja „Approved IR Part 66 Category B“ sem er bóklegt og verklegt iðnnám flugvirkja. Námið tekur mið af námsskrá sem gefin er út af EASA samkvæmt samevrópskri útgáfu skírteina og sér AST um framkvæmd og ber faglega ábyrgð á gæðum námsins. Þeir sem ljúka flugvirkjanámi hjá AST öðlast öll þau réttindi sem EASA 145 viðhaldsfyrirtæki krefjast við ráðningu flugvirkja fyrir nútíma flugvélar.

 


Tengt efni