Aukin gæði í flugkennslu með nýjum flughermi

Myndir: Marie-Laure Parsy
Myndir: Marie-Laure Parsy
Flugakademía Keilis hefur tekið í notkun nýjan og fullkomin flughermi sem líkir eftir tveggja hreyfla Diamond DA42 kennsluflugvél skólans. Flughermirinn er sá fullkomnasti á landinu sem notaður er við kennslu í atvinnuflugmannsnámi og sá næstfullkomnasti á eftir þjálfunarhermi Icelandair á Flugvöllunum í Hafnarfirði.
 
Hermirinn mun veita flugnemum kost á enn ítarlegri þjálfun en áður hefur verið hægt að bjóða upp á og verður meðal annars hægt að æfa aðstæður og viðbrögð sem almennt er ekki hægt að æfa í kennsluflugi. Stjórnklefinn í flugherminum er nákvæm eftirlíking af DA42 kennsluvélinni og finnur nemandi því nánast engan mun á umhverfinu sem gerir þjálfunina mun raunverulegri. Á endanum munu þessir þættir skila sér í betri þjálfun nemenda Flugakademíunnar. 
 
Hægt að æfa viðbrögð við aðstæðum sem ekki er hægt að æfa á flugi
 
Vegna aukinnar ásóknar í flugnám hefur Flugakademía Keilis bætt við fjórum kennsluflugvélum. Áætlað er að vélarnar komi til landsins á næstu mánuðum og verður skólinn þá með samtals fjórtán kennsluvélar á Keflavíkurflugvelli. Auk þess á skólinn fyrir hreyfanlegan flughermi sem hefur reynst afar vel og boðið flugnemum upp á góða möguleika í grunnþjálfun, þjálfun á stjórntækjum og þjálfunartæki í blindflugi. 
 
Snorri Páll Snorrason, skólastjóri Flugakademíunnar, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að bæta við öðrum flughermi sem veiti nemendum enn betri árangri, en með honum verður hægt að þjálfa nemendur á tveggja hreyfla vél í sama umhverfi og þeir eiga að venjast í flugvélum og líkja eftir aðstæðum með mun raunverulegri hætti en áður.
 
Snorri bendir á að í flugkennslu er yfirleitt eingöngu verið að æfa viðbrögð við mótormissi sem hluta af neyðarviðbrögðum en með nýja herminum megi fara í ítarleg atriði og líkja eftir ýmsum aðstæðum sem geta komið upp og þjálfa ákvörðunartöku flugmannsins við þeim. Í flugherminum, sem kemur nýr frá austurríska Diamond framleiðandanum, þeim sama og framleiðir allar kennsluvélar skólans, má kalla fram allar tegundir af veðri og vindum, velja alla helstu flugvelli heims og kalla fram margvíslegar bilanir.
 
Það er því um mikla breytingu að ræða þegar kemur að gæðum kennslu og möguleikum sem atvinnuflugnemum í Flugakademíu Keili bjóðast. „Við erum komin með flugnámsbraut Icelandair (cadet nám) og hafa fleiri flugfélög áhuga á sambærilegu samstarfi vegna mikillar eftirspurnar eftir flugmönnum. Til þess þurfum við að fara alla leið og bjóða upp á enn betri kennsluaðstöðu og búnað, svo við getum boðið flugfélögum upp á það sem þau eru að leita eftir“, segir Snorri.
 

Tengt efni